Pólitískur órói hefur áhrif á ávöxtun
04. júlí 2025

Flestir eignaflokkar hækkuðu á fyrri hluta ársins en lækkun á dollara og styrking krónunnar gagnvart öðrum myntum draga niður ávöxtun blandaðra verðbréfasafna
Miklar sveiflur hafa verið á hlutabréfamörkuðum það sem af er ári sem rekja má til tilkynninga um tollaáform stjórnvalda í Bandaríkjunum. Þessar hræringar hafa sett sitt mark á ávöxtun verðbréfa og þróun á gjaldeyrismörkuðum. Blandaðar ávöxtunarleiðir sem fjárfesta bæði í skuldabréfum og hlutabréfum fyrir utan Ævisafn III hafa lækkað á fyrri hluta ársins um 3,1% til 1,9%. Erlent verðbréfasafn sem fjárfestir eingöngu í erlendum verðbréfum hefur lækkað um 4,7%. Ævisafn III sem fjárfestir lægra hlutfalli af eignum í hlutabréfum en önnur blönduð söfn hækkaði um 0,2%. Þau söfn sem fjárfesta í innlendum skuldabréfum og innlánum hafa hækkað um 2,8% til 4,1%. Skuldabréfasafnið hefur hækkað mest á fyrstu sex mánuðum ársins eða um 4,1% sem samsvarar 1,5% raunávöxtun.
Heimsvísitala erlendra hlutabréfa MSCI hefur hækkað um 9,5% í dollurum en hefur lækkað um 3,9% í íslenskum krónum á fyrri helmingi ársins þar sem dollarinn hefur gefið eftir gagnvart öðrum myntum og vegna styrkingar íslensku krónunnar. Árið fór vel af stað á erlendum mörkuðum og héldu hækkanir áfram fyrstu vikur ársins. Upp úr miðjum febrúar fór að draga til tíðinda og lækkuðu allir helstu hlutabréfamarkaðir sem rekja má til áforma stjórnvalda í Bandaríkjunum um tolla á innflutning. Í byrjun apríl var tilkynnt um 90 daga seinkun á álagningu tolla til Bandaríkjanna og tóku hlutabréfamarkaðir vel við sér í framhaldinu.
Innlendur hlutabréfamarkaður fór einnig vel af stað í upphafi árs en hækkanir á fyrstu vikum ársins gengu hratt til baka. Innlend hlutabréf hafa einnig lækkað og hækkað í takt við tilkynningar um tollaáform stjórnvalda í Bandaríkjunum. Áhrifa af veiðigjaldafrumvarpi fór að gæta á innlendum hlutabréfamarkaði í byrjun júní og sneri markaðurinn og fór í lækkunarfasa. Heildarvísitala aðallista hefur lækkað um 10,9% á fyrri hluta ársins.
Seðlabanki Íslands hefur lækkað stýrivexti í þrígang á árinu, lækkaði vexti um 0,5 prósentustig í febrúar, um 0,25 prósentustig í mars og aftur um 0,25 prósentustig á fundi sínum í maí. Stýrivextir eru því 7,5% um mitt ár. Þrátt fyrir lækkun stýrivaxta hefur ávöxtunarkrafa bæði verðtryggðra og óverðtryggðra ríkisskuldabréfa hækkað frá áramótum sem leiðir til lækkunar á virði þeirra. Vísitala Nasdaq Iceland fyrir 10 ára löng verðtryggð skuldabréf hækkaði um 0,4% og vísitala Nasdaq Iceland fyrir 10 ára löng óverðtryggð skuldabréf lækkaði um 1,4% á fyrstu sex mánuðum ársins. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 2,6% á tímabilinu.
Reikna má með áframhaldandi óróa á mörkuðum næstu vikurnar en þann 9. júlí rennur út 90 daga frestur á gildistöku tolla á innflutning í Bandaríkjunum. Takmarkaður fyrirsjáanleiki í hagstjórn vestanhafs skapar óvissu og sveiflur á mörkuðum. Tollar hafa til þessa haft neikvæð áhrif á alþjóðlegt efnahagslíf og gera má ráð fyrir að dragi úr hagkvæmni í framleiðslu og að lífskjör minnki á heimsvísu. Áfram eru stríðsátök í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs að valda áhyggjum. Á Íslandi er áfram óvissa vegna jarðhræringa víða á landinu sem gæti haft nokkur áhrif á hagkerfið auk óvissu um áhrif veiðigjaldafrumvarpsins og áforma um frekari auðlindagjöld. Engu að síður er vænlegt fyrir langtímafjárfesta að halda sjó og ávaxta eignir í blönduðum verðbréfasöfnum sem leggja áherslu á góða eigna- og áhættudreifingu.
Ávöxtun einstakra ávöxtunarleiða
Blönduð söfn | Ávöxtun blandaðra ávöxtunarleiða, þ.e. Ævisafna I, II, III og samtryggingarsjóðs var frá -3,1% til 0,2% fyrstu sex mánuði ársins. Lækkanir á innlendum hlutabréfamarkaði, veiking dollarans gagnvart örðum myntum auk styrkingar íslensku krónunnar hefur haft mest áhrif til lækkunar á gengi safnanna. |
Ríkissafn | Ríkissafnið hækkaði um 2,8% á fyrri hluta ársins. Það sem skýrir ávöxtun safnsins er tiltölulega há ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa og hækkun á vísitölu neysluverðs. Safnið hefur náð að skila jákvæðri raunávöxtun þrátt fyrir hækkun á ávöxtunarkröfu skuldabréfa sem veldur lækkun á virði þeirra að öðru óbreyttu. |
Innlánasafn | Innlánasafnið hækkaði um 3,5% á fyrri hluta ársins. Safnið ávaxtar eignir sínar að stærstum hluta á bundnum innlánsreikningum og vega verðtryggð innlán um 98% af eignum safnsins. |
Skuldabréfasafn | Skuldabréfasafnið hækkaði um 4,1% á fyrri hluta ársins. Safnið ávaxtar eignir sínar í vel dreifðu innlendu skuldabréfasafni, bæði í ríkisskuldabréfum, sértryggðum skuldabréfum, fyrirtækjaskuldabréfum og veðskuldabréfum. |
Erlent verðbréfasafn | Erlenda verðbréfasafnið lækkaði um 4,7% fyrstu sex mánuði ársins. Jákvæð ávöxtun hefur verið á eignum safnsins í erlendri mynt, bæði hlutabréfum og skuldabréfum. Skýringin á neikvæðri ávöxtun í íslenskum krónum er veiking dollarans gagnvart öðrum myntum ásamt styrkingu íslensku krónunnar. |
Góð eignadreifing
Ávöxtun verðbréfasafna ræðst af eignasamsetningu og ávöxtun einstakra verðbréfaflokka. Almenni lífeyrissjóðurinn leggur mikla áherslu á góða eignadreifingu til að draga úr heildaráhættu safnanna. Sjóðurinn birtir mánaðarlega upplýsingar um ávöxtunarleiðir þar sem meðal annars má lesa um eignasamsetningu. Smellið hér til að skoða upplýsingablöðin. Sjóðurinn birtir einnig ítarlegar upplýsingar um ávöxtun og sveiflur á heimasíðu, sjá nánar hér.