Samtryggingarsjóður með 4,6% raunávöxtun á ári frá 1990

25. júlí 2018

Samtryggingarsjóður með 4,6% raunávöxtun á ári frá 1990
Mynd: Anna Guðmundsdóttir

Raunávöxtun að jafnaði í 28 ár

Almenni lífeyrissjóðurinn hefur tekið saman yfirlit um raunávöxtun samtryggingarsjóðs frá árinu 1990. Á þessu tímabili eða í 28 ár hefur raunávöxtun samtryggingarsjóðs verið 4,6% á ári að jafnaði. Raunávöxtun er lægri ef litið er til síðustu 10, 15 eða 20 ára vegna efnahagshrunsins á Íslandi árin 2008 og 2009 og tæknibólunnar á erlendum mörkuðum árin 2000 til 2002. Síðustu 5 ár hefur raunávöxtun sjóðsins hins vegar verið óvenju góð eða 4,9% á ári.

Frá árinu 1990 hefur samtryggingarsjóður Almenna skilað sambærilegri raunávöxtun og lífeyrissjóðir samtals. Ávöxtun Almenna hefur hins vegar verið lakari frá árinu 1998 og skýringin meðal annars sú að sjóðurinn á hlutfallslega minna af innlendum hlutabréfum en lífeyrissjóðir samtals en þau hafa skilað hárri ávöxtun á síðustu árum.

Vægi skuldabréfa er hærra hjá Almenna en hjá öðrum lífeyrissjóðum en sjóðurinn stefnir á að til lengri tíma verði vægi skuldabréfa og hlutabréfa jafnt. Almenni hefur hins vegar ekki viljað hækka vægi innlendra hlutabréfa umfram 10% til 12% af eignum vegna áhættudreifingarsjónarmiða. Eftir að gjaldeyrishöft voru afnumin á árinu 2017 er stefna sjóðsins að auka vægi erlendra hlutabréfa og að ná fjárfestingarstefnu á næstu 4 til 6 árum. Sjá nánar í fjárfestingarstefnu hér.

Fyrir neðan eru myndir sem sýna upplýsingar um raunávöxtun frá 1990, samanburð við lífeyrissjóði samtals og eignasamsetningu í lok maí 2018.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.